þriðjudagur, 7. október 2014

Kvöldmaturinn

Mér finnst fátt leiðinlegra en að vakna eftir fjögurra nótta næturvaktartörn og eiga eftir að ákveða hvað ég eigi nú að hafa í kvöldmatinn. En í dag lét ég mig hafa það að hitta Halla í búðinni á milli þjálfana hjá honum og við versluðum inn fyrir vikuna. Snilldin ein að labba ein undirgöng og vera komin í Bónus! Versluðum fullt hollt þar á meðal fullt af grænmeti og ávöxtum, kjúkling, hakk, lambalærissneiðar og hnetusmjör. Við lærðum það nefnilega úti í Svíþjóð að fara bara 1x til 2x í búðina í viku og versla mikið inn í einu er mun þægilegra en að vera að hlaupa alltaf út í búð.

Í kvöldmatinn í kvöld ákváðum við að hafa heilan kjúkling með ofnbökuðu grænmeti, sætkartöflufrönskum og soðsósu. Hrikalega var þetta gott!


Grænmetið er rauðlaukur, paprika, sveppir og gulrætur sett í eldfast mót og inn í ofn í 30 mín, þá er brokkolí bætt saman við og eldað í 15 mín í viðbót. Kjúklingurinn er kryddaður með allskonar kjúklingakryddum sem fylgdu með í flutningunum frá Svíþjóð og í eldfastamótið setti ég 500 ml af vatni. Í vatnið setti ég svo afgang af fersku rósmarín sem ég átti, grófhakkaðan rauðlauk og hvítlauk. Þegar kjúklingurinn var til síaði ég soðið frá, setti í pott og sauð með einum kjúklingatening og 1 tsk af rifsberjahlaupi. 


Við keyptum tilbúnar sætkartöflufranskar en það er sko ekkert mál að gera sínar eigin! Þetta borðuðum við með bestu lyst og afganginn af grænmetinu ætla ég að nota í súpu í hádeginu á morgun. Algjör snilld!

-KristínÞorvalds.




Engin ummæli:

Skrifa ummæli